Sæbólsættin og eignarhald hennar á jörðinni Sæbóli í Aðalvík

Það sem hér fer á eftir er saman skrifað eftir þeim heimildum sem er að finna í bókinni Slétturhreppur, fyrrum Aðalvíkursveit. Útgefandi er Átthagafélag Sléttuhrepps 1971. Til Sæbólsættar verða hér taldar allir niðjar hjónanna Steinunnar Magnúsdóttur og Finnbjarnar Ólafssonar.

Verðgildi Sæbólsjarðar hefur lengst af verið talið 16 hundruð að fornu mati. Verðeiningin hundrað (á landsvísu) gefur til kynna verðmæti jarðarinnar, en segir ekkert um stærð landsins að flatarmáli. Samkvæmt landaurakerfinu gamla skiptist hundraðið í 120 álnir (vaðmáls) og hver alin í 2 fiska (málfiska). Þessar verðeiningar munu hafa gilt í viðskiptum manna hér á landi öldum saman, en lögðust af smám saman þegar slegnar myntir komu til sögunnar. Þó hefur verðgildi jarðeigna verið talið í hundruðum að fornu mati (að öðrum þræði) allt fram á þennan dag. Þess má líka geta hér að um langt skeið mun eitt hundrað hafa jafngilt kýrverði.

Steinunn Magnúsdóttir (1756-1816) (1). Steinunn var dóttir Magnúsar Sigmundssonar, hins auðga, í Meirihlíð í Bolungarvík. Hún giftist Finnbirni Ólafssyni, Halldórssonar bónda í Görðum. (Hér er rétt að geta þess innan sviga að Ólafur Halldórsson, faðir Finnbjarnar, getur ekki verið sonur Halldórs Bjarnasonar á Látrum ef Ólafur er fæddur 1723 en Halldór 1763, sbr. Slhr. – Aðalv. bls. 162 og 298).

Þau hjón hófu búskap á Sæbóli árið 1780 og bjuggu þar til 1790 en fluttust þá til Skálavíkur. Þar bjuggu þau fyrst á Meiribakka og síðar á Breiðabóli til 1816 að Steinunn andaðist. Börn þeirra hjóna voru: Guðrún, giftist Halldóri Bjarnasyni og bjuggu þau í Vatnadal í Súgandafirði. Jón, kvæntist Sigríði Ketilsdóttur frá Meiribakka í Skálavík, Eflalía, Magnús og Finnbjörn. Þeir dóu báðir ungir.

Við skipti á dánarbúi Steinunnar árið 1816 kom í ljós að hún hefur átt 8 hundruð í Sæbóli, helming jarðarinnar. Magnús, faðir Steinunnar, var auknefndur “hinn auðgi”. Það bendir til að hann hafi verið vel fjáður. Víst má telja að hann hafi átt Sæból hálft á sínum tíma svo og Skáladal allan, en sú jörð var í eigu Steinunnar við andlát hennar.

Eignarhluti Steinunnar í Sæbóli skiptist þannig milli erfingja hennar: Finnbjörn Ólafsson (1750-1822) (2), maður Steinunnar (1) fékk 5 hundruð. Eflalía Finnbjörnsdóttir (3), sem dó ung og ógefin, dóttir Steinunnar (1) og Finnbjarnar (2), fékk 2 hundruð. Margrét Magnúsdóttir (4), dóttir Steinunnar (1) fyrir hjónaband, fékk 1 hundrað. Guðfinna Jónsdóttir (dáin 1835) (5), sonardóttir Steinunnar (1) og Finnbjarnar (2). Hún missti föður sinn á barnsaldri og ólst upp hjá föðursystur sinni Guðrúnu Finnbjörnsdóttur, húsfreyju í Vatnadal í Súgandafirði. Guðfinna var holdsveik og gat ekki séð sér farborða.

Finnbjörn (2) fluttist til Guðrúnar, dóttur sinnar í Vatnadal eftir andlát konu sinnar 1816, og dvaldi þar uns hann andaðist 1822. Við andlát Finnbjarnar (2) eignaðist Guðfinna (5) þau 5 hundruð sem hann hafði átt í Sæbóli. Guðfinna (5) andaðist á Sæbóli 1835 og átti þá 6 hundruð í jörðinni. Ekki er ljóst hvaðan hún hefur eignast 1 hundrað til viðbótar. Eins og áður segir ólst Guðfinna (5) upp hjá föðursystur sinni, Guðrúnu Finnbjörnsdóttur í Vatnadal og Halldóri Bjarnasyni, bónda hennar, og síðar Gesti Helgasyni, seinni manni Guðrúnar. Guðrún og Gestur fluttust búferlum frá Vatnadal að Sæbóli árið 1825. Var Guðfinna (5) þá í för með þeim og dvaldist hjá þeim til æviloka 1835. Við andlát hennar tók Gestur Helgason (1789-1866) (6), 4 hundruð af þeim 6, sem þá voru í eigu hennar, í meðgjöf með henni, enda hafði hún verið rúmfastur sjúklingur á heimilinu síðustu þrjú árin. Ekki er vitað hvað varð um hin hundruðin hennar tvö.

Ingveldur Sigurðardóttir (1825-1887) (7) giftist 1846 Finnbirni Gestssyni og bjuggu þau á Sæbóli, að því er virðist í sambýli við foreldra Finnbjarnar, þau Guðrúnu Finnbjörnsdóttur og Gest Helgason (6). Finnbjörn andaðist 9. júlí 1862 og var faðir hans þá enn á lífi. Rúmu ári síðar, 31. júlí 1863, gefur Gestur (6) Ingveldi (7), tengdadóttur sinni, 4 hundruð í jörðinni enda sjái hún eða erfingjar hennar fyrir Gesti (6) til æviloka.

Finnur Gestsson (1823-1884) (8), tvíburabróðir Finnbjarnar á Sæbóli, hefur eignast 4 hundruð í jörðinni. Þennan jarðarhluta sinn seldi hann 18. desember 1864 Ketilríði Bjarnadóttur (1822-1879) (9), ekkju Gísla Halldórssonar, bónda í Þverdal. Gísli var hálfbróðir þeirra Sæbólsbræðra, Finns og Finnbjarnar. Móðir þeirra var Guðrún Finnbjörnsdóttir en faðir Gísla var Halldór Bjarnason, fyrri maður Guðrúnar.

Ekki er vitað hvenær eða hvernig Finnur (8) hefur eignast áður nefnd 4 hundruð í Sæbóli. Þó má leiða getum að því að þar séu komin í leitirnar þau 4 hundruð sem ekki voru í eigu Ingveldar (7) um þessar mundir en áður voru í eigu Steinunnar (1) við andlát hennar 1816. Líklegt má telja að þessi 8 hundruð hafi verið í eigu afkomenda Steinunnar þar til Finnur (8) seldi sín 4 hundruð 1864. Ekki virðist ljóst hver eða hverjir áttu þann hluta Sæbóls sem Steinunn (1) og afkomendur hennar áttu ekki á 19. öldinni. Ekki er heldur víst hvað hefur orðið um þau 4 hundruð sem Finnur (8) seldi Ketilríði (9) 18. desember 1864. Ekki verður séð að neitt barna hennar hafi nokkurn tíma búið á Sæbóli.

Vitað er að Guðmundur Sigurðsson (1829-1918) (10), þá bóndi á Sæbóli, átti a.m.k. 2 hundruð í jörðinni árið 1868. Guðmundur var albróðir Ingveldar (7) og kona hans, Ingibjörg Bjarnadóttir, var alsystir Ketilríðar (9). Árið 1904 bjuggu þau hjón aftur á Sæbóli en höfðu þar á milli búið á Stað og Steinólfsstöðum (hvaða ??). Þau arfleiddu nú fósturson sinn, Einar Benjamínsson (1883-1915) (11), að 6 hundruðum í jörðinni, sem þá hafa verið í þeirra eigu. Ekki er ljóst af þeim heimildum, sem hér er stuðst við, hvort þessi hluti jarðarinnar hefur áður verið í eigu afkomenda Steinunnar (1) eða hér er fundinn hluti áður ókunnra eigenda.

Þegar litið er til þess að Guðmundur (10) átti 2 hundruð í Sæbóli 1868 en þau hjón eiga 6 hundruð 1904 er sú ágiskun ekki fjarri lagi að þau 4 hundruð, sem hafa bæst við fyrri eign Guðmundar (10), geti verið komin frá Ketilríði (9) systur Ingibjargar, konu Guðmundar. Auðvitað er þetta hrein ágiskun. Ketilríður (9) andaðist 1879. Þrjú barna hennar voru þá á lífi þau: María Gísladóttir, húsfreyja í Neðri-Miðvík, Jósef Gíslason, bóndi í Görðum og Guðrún Gísladóttir, einhleyp. Ekkert þeirra virðist hafa eignast hlut í Sæbóli.

Árið 1899 voru þrír ábúendur á Sæbóli og voru allir synir Finnbjarnar og Ingveldar (7): Finnbogi, Guðmundur Helgi og Magnús. Finnbogi lést snemma á árinu en ekkja hans, Hansína Bæringsdóttir, stýrði búinu ásamt börnum sínum. Afnot jarðarinnar skiptust þá þannig milli þessara þriggja ábúenda: Finnbogi (Hansína) 7 hundruð, Guðmundur Helgi 2 hundruð og Magnús 7 hundruð. Þessi skipting segir þó ekkert um eignarhlut hvers ábúanda því að þeir hafa getað tekið eignarhluta annarra á leigu.

Þegar hér var komið sögu voru á lífi fimm af börnum Finnbjörns og Ingveldar (7), auk bræðranna þriggja systurnar tvær Guðrún, húsfreyja á Læk, og Hjálmfríður, húsfreyja á Hesteyri. Sterkar líkur benda til þess að Hjálmfríður hafi um þessar mundir átt 2 hundruð í Sæbóli. Þá vekur það athygli að Guðmundur Helgi, yngstur þeirra fimm systkina, hefur afnot af 2 hundruðum. Gæti það ef til vill bent til þess að þau systkinin öll hafi á sínum tíma eignast 2 hundruð hvert eða 10 hundruð alls? Það gæti svo komið heim við þá staðreynd að nokkru seinna (1904) á Guðmundur (10) 6 hundruð í jörðinni.

Svo er að sjá sem eignarhald á Sæbóli hafi að mestu eða öllu leyti komist í hendur afkomenda Finnbjarnar og Ingveldar (7) á fyrstu áratugum tuttugustu aldar. Einar Benjamínsson (11) fórst í fiskiróðri 1915. Ekkja hans, Hermannía Brynjólfsdóttir, er ekki talin meðal ábúenda Sæbóls. Verður því að telja líklegt að hún hafi selt (eða leigt) eignarhluta Einars (11) skömmu eftir slysið. Ég minnist þess reyndar að hafa heyrt þess getið að Guðmundur Helgi hafi eignast hluta Einars (11). Hef þó ekki fundið þetta skjalfest.

Þannig bendir margt til þess að eignarhald á jörðinni allri hafi komist í hendur afkomenda Finnbjarnar og Ingveldar (7) snemma á tuttugust öldinni. Þinglýsingarvottorð, útgefið 9. maí 1997 af sýslumanninum á Ísafirði, ber með sér að eignarhald jarðarinnar er þá skipt milli 30 þinglýstra eigenda. Eignarhluti hvers eiganda um sig er mjög misstór. Stærstur er hlutur Ágústs Ísleifssonar, 5 hundruð. Allir aðrir eigendur eru afkomendur þeirra Sæbólshjóna Finnbjörns og Ingveldar (7). Ágúst Ísleifsson mun á sínum tíma hafa keypt þessi 5 hundruð af Jóhannesi, syni Guðmundar Helga Finnbjörnssonar, eða heitkonu hans, Fríðmeyju Guðnadóttur, (þinglýst 17. nóvember 1943).

Guðmundur Helgi andaðist 9. júlí 1939. Jóhannes sonur Guðmundar var einkaerfingi hans og hefur vafalítið tekið við búsforráðum við andlát hans eða fyrr. Jóhannes hafði þá lengi verið heilsuveill og andaðist 20. júlí 1942.

Af því sem hér hefur verið saman skrifað má ráða að Sæból allt hafi verið í eigu Sæbólsættar um nokkurt skeið á fyrri hluta 20. aldar eða frá því um 1915, þegar Einar Benjamínsson (11) fórst, fram til 1943 þegar Ágúst Ísleifsson eignast 5 hundruð í jörðinni. Síðan hefur eignarhluti Ágústs verið í eigu afkomenda hans.

Landamerkjaskrá fyrir jörðina Sæból hefur verið þinglýst á manntalsþingi að Sléttu 14. júní 1887. Skrá þessi er ýtarleg að því er best verður séð, en erfitt er að átta sig á hvar mörkin liggja, þegar maður þekkir ekki örnefni sem þar eru tilgreind. Landamerkjaskráin er undirrituð af sjö mönnum sem eru taldir eigendur jarðarinnar. Þeir eru þessir: Guðmundur H. Finnbjarnarson, P. Sigurðsson, Hermann Sigurðsson, Sigfús Finnbjarnarson, Magnús Finnbjarnarson, Finnbogi Finnbjarnarson, Benedikt Jónsson. Fjórir þessara eigenda voru synir hjónanna Finnbjarnar Gestssonar og Ingveldar Sigurðardóttur (7). Enn fremur voru Hermann og Benedikt tengdasynir þeirra hjóna, Hermann kvæntur Guðrúnu og Benedikt Hjálmfríði dætrum þeirra. Þau Sæbólshjón voru bæði látin þegar þessi skrá var gerð, Ingveldur þó ekki fyrr en 10. janúar á þessu sama ári. En hver er sjöundi eigandinn, sá sem ritar nafn sitt P(?). Sigurðsson? Því er vandsvarað. Enginn húsbænda á nálægum bæjum er líklegur til að rita nafn sitt þannig nema ef vera skyldi presturinn á Stað, séra Páll Sívertsen. Ef svo kynni að vera gæti hugsast að sýsluskrifarinn á Ísafirði hafi mislesið eða misritað nafnið, Sigurðsson fyrir Sívertsen. Ekki er þó vitað að séra Páll hafi átt neitt í jörðinni. Þó er ekki útilokað að hann hafi haft umráðarétt á einhverjum hluta hennar um þetta leyti eða undirritað skrána í umboði annars eiganda t.d. Guðmundar Sigurðssonar (10). Allar líkur benda til að hann hafi átt a. m. k. 2 hundruð í jörðinni um þetta leyti eins og að framan greinir. Guðmundur hafði búið á Stað 1870 til 1886 en flutti þá að Steinólfsstöðum. Séra Páll kom að Stað 1876 svo að þeir hafa búið þar tíu ár samtímis. Guðmundur var nýlega fluttur brott þegar landamerkjaskráin var gerð. Því virðist ekki óhugsandi að klerkur hafi verið umboðsmaður Guðmundar við gerð skrárinnar, þó að þess virðist ekki getið á skjalinu. Leiðin frá Steinólfsstöðum að Sæbóli er líka býsna löng og torsótt.

Skráð í Reykjavík, 11. nóvember 2003.

Kristinn Gíslason.

Viðauki: Þinglýsing landamerkjaskrá fyrir jörðinni Sæból í Sléttuhreppi.

Þinglýst á manntalsþingi að Sléttu 14. júní 1887 Sk. Thoroddsen. Borgun: Þingl. 0,75. Bókun:0,25. 1,00 ein króna. Borgað Sk. Th.

No. 58.

Landamerkjaskrá fyrir jörðinni Sæbóli í Sléttuhreppsþinghá innan Ísafjarðarsýslu sem er að dýrleika eptir nýju mati 13,2 (rd) með sínum gömlu landamerkjum, sem greinir: Sæbólsland aðskilur frá Skáladalslandi við sjóinn Hvalsker það, sem nefnt er, undir Skáldalsbjargi, þaðan í Sæbólsker, þaðan með sjó fram við Selastillur, svo aptur frá Sigmundarlæk yfir í Staðará, sem dregur nafn af því, að á þessi rennur fram úr Staðarvatni og heilt til sjóvar og aðskilur Sæbólsland frá Þverdalslandi, og eru slægjulönd beggja jarðanna hversvegar við. Sæból á land allt frá fyrnefndri á yfir í Sigmundarlæk, og það heilt fram í Grjóthóla og í hólma, sem er í ánni neðanhalt við og þar í stein hins vegar á árbakkanum, svo neðan eptir greindum holtum þessum upp Stúfhjalla og í gil, sem er í hjallbrúninni neðan til við Lækjarland og eptir þeirri fjallbrú að Garðarhorni, sem nefnt er, þaðan niður fjallið og yfir hólana undir þessu fjalli og í Hrútslæk, sem að skilur slægjuland Sæbóls og Garðar vestan fram við Sigmundarlæk, og rennur Hrútslækur í þennan læk, og á Sæból slægjuland fyrir framan hann, en Garðar fyrir heiman, og er gamalt örnefni þar meðfylgjandi, sem Gíslastaðir eru nefndir og fylgja þessu Sæbólslandi að framanverðu. Ennfremur verður að geta, að Sæból á land frá Traðará, sem rennur niður með Sæbólstúninu að framanverðu og uppi er merki milli bæjanna og er þar nefnd Andraveita, sem aðskilur, og sniðhalt neðan upp í túngarð gamlan, utan til við Garðartúnið, það neðan eptir merkjum upp Ásahlíðina framan til upp á ása, það neðan á leiðina, sem nefnd er, á fjallinu og út eptir fjallinu á áðurnefndan tind og beint niður bjargið á hið fyrnefnda Hvalsker. Landi þessu fylgja engin ítök.

Sæbóli, 24. febrúar 1887,

Næstu eigendur: Jósef Gíslason, María Benóníson, Judit Bjarnadóttir.

Eigendur: Guðm. H. Finnbjarnarson, P. Sigurðsson, Hermann Sigurðsson, Sigfús Finnbjarnarson, Magnús Finnbjarnarson, Finnbogi Finnbjarnarson, Benedikt Jónsson.