Halldóra og Gísli á Hesteyri

Halldóra, móðir okkar, ólst upp hjá foreldrum sínum á Hesteyri allt til fullorðinsára. Á unglingsárum réðst hún þó til vistar hjá læknishjónunum á Ísafirði. Þar kynntist hún siðum og háttum kaupstaðarbúa og lærði til verka sem henni voru miður kunn áður.

Á þessum árum vaknar hjá henni löngun til skólanáms. Hún setur sér það mark að afla fjár sem til þyrfti að komast til náms við Kvennaskólann í Reykjavík. Hún hafði sparað eitthvað saman af kaupi sínu á Ísafirði, en hélt síðan til Reykjavíkur. Þar vann hún tvö ár að fiskverkun á Kirkjusandi, auk þess sem hún var um skeið vistráðin hjá embættismannshjónum í kaupstaðnum. Hún mun hafa verið um tvítugt er þarna var komið sögu.

Um þetta leyti varð Benedikt, faðir hennar, fyrir fjárhagslegu tjóni sem hann gat ekki reist rönd við. Þá brugðu þau systkin, Jón Finnbjörn og Halldóra, á það ráð að leggja fram sparifé sitt til að rétta við fjárhag heimilisins. Brustu þá vonir móður okkar um skólagöngu.

Leiðir foreldra okkar lágu saman þegar faðir okkar réðst til kennslustarfa á Hesteyri haustið 1915. Amma okkar og afi munu hafa tekið að sér að veita honum húsaskjól, fæði og aðra aðhlynningu. Af dagbók föður okkar má ráða að hann og móðir okkar hafi þegar á þessum vetri ákveðið að gefast hvort öðru. Hann er því áfram heimilisfastur á Langavelli um sumarið og vinnur að öllum bústörfum svo sem móskurði, heyskap, jarðabótum o.fl. 28. september 1916 voru þau svo gefin saman í hjónaband á Stað í Aðalvík af síra Runólfi Magnúsi Jónssyni.

Um miðjan maí 1917 búast þau hjónin til brottfarar frá Hesteyri og er förinni heitið til Þelamerkur í Eyjafjarðarsýslu. Á bænum Skógum þar í sveit bjó þá Svanfríður Bjarnadóttir, föðursystir okkar. Hún var ekkja og bjó þarna með börnum sínum og ráðsmanni. Þangað leita nú foreldrar okkar og er vel fagnað. Í Skógabaðstofunni ól móðir okkar sitt fyrsta barn 19. júní þetta sumar.

Næstu árin eru foreldrar okkar í húsamennsku á bæjum í Hörgárdalnum, fyrst eitt ár í Fornhaga og síðan tvö ár á Hallfríðarstöðum. Þar á bæ fæddist Hjálmar, bróðir okkar, 22. desember 1998. Vorið 1920 keyptu foreldrar okkar kotbýlið Háls í Öxnadal og bjuggu þar næstu fimm árin.

Benedikt, afi okkar á Hesteyri, andaðist úr lungnabólgu 27. júlí 1924. Líklegt má telja að Hjálmfríður, amma, hafi ekki treyst sér til að búa áfram búi sínu á Langavelli og hafi það orðið að samkomulagi með bréfskiptum að foreldrar okkar flyttust vestur og tækju þar við búi.

Á vordögum 1925 höfðu foreldrar okkar selt jörð sína, bústofn og lausafé flest og fluttust til Hesteyrar. Þegar þangað kom settist fjölskyldan að í húsi ömmu okkar. Þá var þar hjá henni unglingspiltur frá Atlastöðum. Það er ekki ljóst hve lengi hann hefur verið henni til halds og trausts né hver eða hverjir aðrir hafa veitt henni stuðning eftir andlát afa okkar.

Foreldrar okkar tóku nú þarna við búi og dvaldi gamla konan á heimilinu uns hún fluttist alfarin að Sæbóli, skömmu fyrir jól á því ári. Þar dvaldi hún síðan á heimili Ingveldar Finnbogadóttur og Jóhannesar Kristjánssonar allt til dánardags, 22. janúar 1936. Þau hjón höfðu þá búið þar á eignarhluta Hjálmfríðar í jörðinni frá árinu 1917. Samkvæmt dagbók Gísla, föður okkar, voru þau Ingveldur og Jóhannes til heimilis að Langavelli sumarið 1916. Þau gengu þar að öllum bú- og heimilisstörfum með öðru heimilisfólki. Ekki gengu þau í hjónaband fyrr en haustið 1917.

Erfðafjárskýrsla vegna skipta á dánarbúi Benedikts, afa, er dags. á Ísafirði 9. júlí 1926. Gísli R. Bjarnason undirritar skýrsluna fyrir hönd konu sinnar, Halldóru, og Jóhannes P. Guðmundsson, bróðursonur Hjálmfríðar, fyrir hennar hönd. Hann mun hafa verið skipaður fjárhaldsmaður gömlu konunar. Þær mæðgur voru einu erfingjar Benedikts.

Erfðafjárskýrslan sýnir að skuldlaus eign búsins reyndist vera 4.580 kr. Verðmætustu eignir búsins voru: íbúðarhús á Hesteyri 1.200 kr., 2 hdr. f. m. í Sæbóli 600 kr. Aðrar eignir voru búfé og verkfæri. Af búfénu var kýrin verðmætust, metin á 200 kr. Til samanburðar má geta þess til gamans að kotið í Öxnadal seldist á 5.000 kr.

Í skiptagerðinni kemur fram að móðir okkar fékk í sinn hlut jarðarhlutann á Hesteyri, húsið, búféð og verkfærin, en amma fékk jarðarpartinn í Sæbóli. Foreldrar okkar sömdu svo við hana (Jóhannes, fjárhaldsmann hennar) um greiðslu á andvirði þess hluta eignanna, sem móðir okkar fékk í sinn hlut umfram það sem henni bar. Skyldi skuldin greiðast á 6 árum með 6% ársvöxtum.

Foreldrar okkar bjuggu nú áfram á Hesteyri meðan bæði lifðu. Þar fæddist Sigurrós systir okkar 18. október 1929. Hér eru engin efni til þess að skoða afkomu heimilisins á þessum árum. Þó er það víst að lífsbaráttan var hörð.

Faðir okkar var fæddur í fjarlægu héraði og hafði alist upp við aðstæður, sem voru næsta ólíkar því sem tíðkaðist vestra. Hann hafði varla á sjó komið og kunni ekkert til starfa að sjómennsku né sjávarafla. Hann var því ekki gjaldgengur til þeirra starfa sem almenningur vestra byggði afkomu sína á að drjúgum hluta. Hins vegar var honum sýnt um jarðrækt, fjármennsku og heyskaparstörf. Þótti t.d. afburðasláttumaður að mati Hesteyringa.

Faðir okkar hafði á sínum tíma ráðist til kennslustarfa á Hesteyri eins og áður segir. Nú verður það úr að hann tekur þarna við starfi farkennara haustið 1925. Með því ætlar hann að að freista þess að drýgja tekjur sínar til móts við hásetahlut annarra fjölskyldufeðra. Þó var sá hængur á þessu ráði að kennslustarfið var ekki með öllu auðvelt að samræma skepnuhirðingu og öðrum bústörfum. Þar skipti miklu að kennslunni var skipt jafnt milli skólanna á Hesteyri og Sæbóli. Kennt var samtals þrjá mánuði á hvorum stað hvern vetur. Þá kom það í hlut móður okkar að annast bústörfin í fjarveru pabba hálfan veturinn og efalaust að nokkrum hluta líka þó að hann kenndi heima við. Hennar hlutur var sjálfsagt býsna drjúgur. Hvað sem öðru líður bjuggum við aldrei við skort en eflaust hafa foreldrar okkar mátt gæta ýtrustu hagsýni og sparsemi.

Faðir okkar andaðist 21. águst 1936 úr mislingum. Móðir okkar sat áfram í óskiptu búi uns hún brá búi vorið 1943 og fluttist til Þingeyrar ásamt Sigurrósu dóttur sinni. Hafði hún þá selt eignir sínar á Hesteyri. Á Þingeyri dvöldust þær mæðgur í skjóli Hjálmars, bróður okkar, og Margrétar konu hans, um skeið. Þarna gekk mamma að ýmsum störfum, er þar var að fá, auk þess sem hún hefur sjálfsagt rétt tengdadóttur sinni hjálparhönd ef því var að skipta. Haustið 1948 flutti hún svo til Reykjavíkur og dvaldi þar á heimili Kristins, sonar síns, og Margrétar, konu hans, þar til á vordögum 1987 að hún fluttist til Sigurrósar, dóttur sinnar, og Guðmundar, manns hennar, í Kópavogi. Hún var þá nokkuð ellimóð og hafði verið um hríð.

Meðan mamma dvaldist á heimili okkar á Hoftegi gekk hún um margra ára skeið að störfum við fiskverkun meðan henni entist sjón og starfsþrek. Þá eru ótalin handtök hennar á heimili okkar meðan hún mátti sín nokkurs.

15. febrúar 1988 flutti mamma svo á Hjúkrunarheimilið Skjól. Þar andaðist hún 30. september 1989.

Reykjavík 12. desember 2001,
Kristinn Gíslason.