Hjálmfríðarból

Hjálmfríðarból, sumarhús í landi Sæbóls í Aðalvík létum við systkin, Sigurrós Gísladóttir og Kristinn Gíslason, reisa á eignarhluta ömmu okkar, Hjálmfríðar Finnbjarnardóttur, í jörðinni. Bróðir okkar, Hjálmar Gíslason, sem er eigandi jarðarhluta Hjálmfríðar að 1/3 hluta á móti okkur, gaf samþykki sitt til þessarar framkvæmdar. Á sama hátt gáfu aðrir þeir, sem voru þinglýstir eigendur jarðarinnar samkvæmt þinglýsingarvottorði útg. 9. maí 1997 af sýslumanninum á Ísafirði, skriflegt samþykki sitt áður en hafist, var handa.

Eignarhluti ömmu okkar í Sæbóli, 2 hundruð að fornu mati, 1/8 hluti af verðgildi jarðarinnar allrar, komst í eigu okkar syskina við fráfall móður okkar, Halldóru Benediktsdóttur, sem andaðist 30. september 1989. Hún var einkaerfingi Hjálmfríðar móður sinnar.

Móðurforeldrar okkar, Hjálmfríður og Benedikt Jónsson, hófu búskap á Sæbóli árið 1885 og bjuggu þar til 1893 að þau fluttust til Hesteyrar og bjuggu þar síðan meðan bæði lifðu. Þeim varð þriggja barna auðið. Auk Halldóru, móður okkar, áttu þau tvo syni, Jón Finnbjörn og Kristin Ragúel. Þeir fórust með vélbáti á leið frá Reykjavík til Ísafjarðar 21. apríl 1916.

Benedikt afi okkar var fæddur á Hesteyri og ólst þar upp hjá foreldum sínum, Elínborgu Guðmundsdóttur og Jóni Benediktssyni. Hann átti eina systur, Kristínu, og hálfbróður, Guðmund að nafni. Hann var átta árum eldri en Benedikt.

En hvernig stóð á því að Hjálmfríður og Benedikt hófu búskap á Sæbóli en ekki á Hesteyri? Þessari spurningu er ekki auðsvarað. Þó mætti geta þess til að þau hjónin hafi haft eignar- eða umráðarétt á jarðarnæði á Sæbóli. Sú tilgáta gæti stuðst við þá staðreynd að 2 hundruð í jörðinni voru í eigu Hjálmfríðar árið 1925. Ekki er þó vitað hvenær eða hvernig þessi jarðarhluti komst í eigu Hjálmfríðar eða þeirra hjóna. Ingveldur Sigurðardóttir, móðir Hjálmfríðar, átti 4 hundruð í Sæbóli um það leyti er Hjálmfríður og Benedikt hófu búskap. Hún hafði þá verið ekkja í nærfelt 20 ár en búið á Sæbóli ásamt sonum sínum þrem. Þeir eru allir taldir bændur á Sæbóli er hér var komið sögu. Ingveldur mun hins vegar hafa látið af búsumstangi um þessar mundir.

Nú er á það að líta að Benedikt er talinn húsmaður (ekki bóndi) á Sæbóli meðan hann bjó þar. Það bendir fremur til þess að þau Hjálmfríður hafi ekki haft eignar- eða umráðarétt á jörðinni. Þá er enn óráðin sú gáta hvenær og hvernig amma okkar eignaðist sín 2 hundruð í Sæbóli. Arfshluti hennar eftir móður sína gat ekki numið meira en 2/3 hlutum hundraðs. Að þessu athuguðu má líklega gera ráð fyrir því að amma okkar og afi hafi talist í húsmennsku hjá einhverjum eiganda jarðarinnar og þá líklega helst Ingveldi.

Þá er ósvarað þeirri spurningu, hvers vegna þau hófu ekki búskap sinn á Hesteyri ef þá áttu ekki að jarðnæði að hverfa á Sæbóli. Svarið gæti verið: Kannski var enn þrengra fyrir dyrum á Hesteyri.

Foreldrar Benedikts áttu ekki hlut í Hesteyri en bjuggu þar í sambýli við stjúpföður Jóns, Þorvarð Þorsteinsson. Hann mun háfa átt 6 hundruð í jörðinni, eða 1/4 hluta hennar.

Faðir Benedikts andaðist 1861, fertugur að aldri. Röskum tveim árum síðar giftist ekkjan, Elínborg, Þorsteini Jónssyni og bjuggu þau áfram á sama stað. Áður nefndur Þorvarður Þorsteinsson var enn á lífi um það leyti, nokkuð við aldur. Rúmum mánuði áður en Elínborg giftst Þorsteini gaf Þorvarður henni 3 hundruð í Hesteyrarjörð og samtímis gaf hann Guðmundi Jónssyni hin 3 hundruðin sem hann átti.

Með gjafabréfum þessum hefur Þorvarður líklega viljað tryggja að eignarhluti sinn í Hesteyrarlandi héldist í eigu afkomenda Jóns, stjúpsonar síns. Þorvarður var þá orðinn ekkjumaður og átti ekki erfingja.

Guðmundur var óskilgetinn sonur Jóns. Hann var fulltíðarmaður um þessar mundir en hafði ekki staðfest ráð sitt. Hálfsystkin hans, Kristín og Benedikt, voru hins vegar enn á barnsaldri. Því er ekki líklegt að breytingar á högum þessarar fjölskyldu hafi orðið aðrar en þær að þessu sinni að Þorsteinn tekur við búsforráðum af Þorvarði.

Nú gerist það að Guðmundur Jónsson kvænist árið 1870 og telst nú bóndi á Hesteyri næstu 20 árin. Hann mun hafa verið heilsuveill, einkum er aldurinn færðist yfir. Þegar Benedikt er orðinn fulltíða maður og hefur staðfest ráð sitt árið 1885 er svo ástatt á Langavelli að þar eru fyrir tveir búendur á þeim hluta jarðarinnar sem Þorvarður hafði átt. Þá er engan veginn víst að þau Hjálmfríður hafi átt þess kost að setjast þar í bú. Þó svo hefði verið er ekki að vita hvort þeim hefði þótt það fýsilegt. Enn má hugsa sér að Ingveldur, móðir Hjálmfríðar, hafi boðið þeim að setjast í bú með sér.

Það sem hér hefur verið skráð eru aðeins vangaveltur sem erfitt er að renna frekari stoðum undir. En nú er þess að geta að þau Hjálmfríður og Benedikt sitja um kyrrt á Sæbóli í 8 ár en flytja þá til Hesteyrar. Hvað hefur nú breyst?

Ingveldur á Sæbóli andaðist snemma árs 1887 á 62. aldursári. Ungu hjónin eru þó enn um kyrrt á Sæbóli næstu 6 árin. Andlát Ingveldar virðist því engu hafa breytt.

Hins vegar hafa orðið breytingar á Langavelli. Guðmundur, hálfbróðir Benedikts, hættir búskap árið 1890, líklega vegna heilsubrests. Kona hans var þá látin þrem árum fyrr. Guðmundur á þó að sjálfsögðu sín 3 hundruð í jörðinni en getur ekki nýtt sér að gagni. Þá virðist ekki óhagstætt fyrir Benedikt að taka þar við búi í nokkru sambýli við móður sína og stjúpföður.

Enn erum við engu nær um það hvernig og hvenær amma okkar eignaðist 2 hundruð í Sæbóli. Ólíklegt má telja að það hafi gerst eftir að þau voru flutt til Hesteyrar. Verður þá að teljast líklegra að þau hjónin hafi eignast þennan jarðarpart um það leyti er þau hófu þar búskap eða á fyrstu árum sínum þar. Trúlega hafa þau keypt hann af einhverjum eiganda jarðarinnar að mestu eða öllu leyti. Hugsast getur að ónákvæmt sé fært í prestsþjónustubók eða manntalsskrá þar sem Benedikt er talinn húsmaður á Sæbóli.

Hjálmfríður og Benedikt bjuggu svo búi sínu á Hesteyri þar til Benedikt andaðist sumarið 1924. Ekki er annað vitað en þeim hafi búnast bærilega líkt og öðrum Hesteyringum sem áttu við svipuð kjör að búa. Afkoman byggðist nokkuð jöfnum höndum á landsnytjum og sjávarafla. Skömmu fyrir aldamótin 1900 byggðu Norðmenn hvalstöð á Stekkeyri innar við fjörðinn. Eflaust reyndist Hesteyringum nokkur búbót að daglaunavinnu sem þar var að fá. Þess má geta hér að Norðmenn fluttu með sér á vorin tilsniðið efni í íbúðarhús handa Hesteyringum sem þess höfðu óskað. Þrjú slík hús voru reist á Hesteyri Og átt afi okkar eitt þeirra. Þetta voru vönduð hús og reyndust vel. Þau eru nú nærfellt aldargömul og enn í fullu gildi.

Reykjavík 29. júlí 2001,
Kristinn Gíslason.