Veiðileysufjörður - Búðir í Hlöðuvík - Hesteyri - Aðalvík

Gylfi Kristinsson

Yfirlit

Leiðin er þrjár dagleiðir, að stærstum hluta auðgengin. Undantekning er Hlöðuvíkurskarð. Snjór situr í skarðshvilftinni einkum sunnan megin. Harðfenni gæti gert göngufólki erfitt fyrir. Hyggilegt er að hafa tiltækt tæki til auðvelda uppgöngu með því að marka í fönnina, t.d. gönguprik með hvössum broddi. Norðan megin er stórgrýtt skriða og mikilvægt að fara niður á réttum stað. Áætlaður daglegur göngutími er miðaður við gönguhóp sem er með allan útbúnað meðferðis, þ. á m. tjald og svefnpoka. Auk alls venjulegs útbúnaður eru vaðskór þarfaþing.

Í texta þeim sem hér fylgir er lögð áhersla á að koma á framfæri GPS hnitum og ábendingum um leiðina sem slíka. Upplýsingar um sögu og náttúru er að finna í ýmsum ritum einkum árbók Ferðafélags Íslands 1994; Ystu strandir norðan Djúps, Guðný Ása Grímsdóttir sá um úrgáfuna, Rit Útvistar nr. 25 um Hornstrandir og Hornstrandir - gönguleiðir eftir Pál Ásgeir Ásgeirsson.

Fyrsta kvöld

Meleyri í Veiðileysufirði (N66°21.696' V022°39.439')

Skynsamlegt er að hefja gönguna með því að hafa næturstað í Veiðileysufirði. Góðar flatir eru austan megin árinnar á milli Steinólfsstaða og Meleyrar, þ.e. Meleyrarmeginn. Þess má geta að á Meleyri stóð fyrrum hvalstöð en um hana eru nú engin ummerki.

Fyrsti göngudagur: Veiðileysufjörður - Búðir í Hlöðuvík (8 klst)

Efst í Hlöðuvíkurskarði (N66°23.264' V022°38.625')

Ganga er hæg frá Meleyri og upp í Hlöðuvíkurskarð. Á þeirri leið er áin á vinstri hönd. Á köflum er leiðin stórgrýtt þegar hærra er komið. Síðasti kaflinn upp í skarðshvilftina er nokkuð brattur. Kambur gengur fram úr fjallinu austan megin við skarðið. Ganga má upp kambinn og síðan skáskera síðasta brattan til vestur. Þokusamt er efst í skálhviltinni og mikilvægt að fara að vestan verðu norður yfir skarðið. Þar er gata. Ef farið er of austarlega verður fyrir stórgrýtt skriða ill yfirgöngu. Ýmsir hafa talað um að í góðu veðri sé skemmtilegast halda úr skálarhviltinni til austurs upp á kjölinn út á Skálarkamb, niður skál og þaðan að Búðum. Sá sem þettar skrifar tók stefnuna til norðurs þegar komið var niður úr skriðunni. Best er að halda sig nokkuð hátt og fara ofarlega í dalnum yfir árnar sem þar er að finna. Sé sá kostur valinn er komist hjá því að vaða ár.

Búðir (N66°25.542' V022°39.438')

Flestir munu hins vegar kjósa að ganga með rótum Álfsfells niður að Hlöðuvíkurós. Búið var að setja göngubrú yfir ána en hana tók af í vorleysingum og var ekki sjáanleg sumarið 2001. Hentugast er að slá upp tjaldi við Búðir sem eru í 15 mínútna göngufæri frá ósnum. Þar er að finna bestu hreinlætisaðstöðu á norðanverðum Vestfjörðum með vatnssalerni og aðstöðu til uppþvotta á mataráhöldum. Hægt er að komast í sturtu ef eigendur eru á staðnum. Í góðu veðri er þó fallegast að tjalda á árbakkanum við ósinn.

Annar göngudagur: Búðir í Hlöðuvík - Hesteyri (10 klst.)

Kjaransvíkurskarð (N66°23.166' V022°44 885')

Leiðin frá Búðum að Hesteyri er lengsti áfanginn á þessari leið. Óvanir eru sennilega um það bil 10 tíma að ganga leiðina í góðu veðri. Ekki er hyggilegt fyrir óvana að ganga leiðina í einum áfanga í rigningu og roki. Frekar að skipta henni í tvo áfanga. Þannig mætti ganga frá Búðum upp Kjaransvíkurdal og slá upp tjaldi áður en lagt er á brattan upp í Kjaransvíkurskarð. Hnit á leið upp í skarðið: N66°23.166' V022°44.889'. Ef til vill er einnig hægt að tjalda í botni Hesteyrarfjarðar. Sjálf gangan upp í skarðið og niður úr því er tiltölulega auðveld. Sumarið 2001 var töluverður snjór í skarðinu Hesteyrarfjarðarmeginn.

Hesteyri (skólinn) (N66°20.009' V022°55.479')

Tvær gönguleiðir eru frá Kjaransvíkurskarði að Hesteyri. Hægt er að ganga fjöru en þá þarf að sæta sjávarföllum hjá svonefndri Ófæru, sem er berggangur er gengur fram úr brattri hlíð ekki langt frá Stöðinni, þ.e. hvalstöðinni skammt fyrir austan Hesteyri. Algengara er að ganga ofar og fara Hesteyrarbrúnir innri. Þessi leið er seinfarin og valda því nokkrar stórgrýttar skriður á leiðinni. Kosturinn er sá að hún er vörðuð nær alla leiðina frá Kjarnasvíkurskarði. Hesteyri kemur ekki í ljós fyrr en búið er að ganga yfir öxl Kistufells. Þorpið ætti að sjást frá hnitinu N66°21.204' V022°49.938'(fengið af korti Landmælinga).Gönguslóði er síðustu kílómetrana sem liggur niður svonefnda Kúfsbrekku. Oft mun vera skafl í brekkunnni. Nauðsynlegt er að vaða yfir Hesteyrará. Ekki er hörgull á tjaldstæðum á Hesteyri. Margir munu kjósa að tjalda í nágrenni Læknishússins en þar er rekin þjónusta við ferðalanga á sumrin. Fyrir félaga í Hjálmfríðarbólsfélaginu er áhugaverðara að skjóta upp tjaldi við kirkjugarðinn. Við rætur hans er allgóð grasflöt. Frá henni blasir við Langivöllur þar sem fyrrum bjuggu Halldóra Benediktsdóttir og Gísli Rósinberg Bjarnason og fyrir þeirra tíma Hjálmfríður Finnbjörnsdóttir og Benedikt Jónsson. Halldóra og Gísli eru grafin í kirkjugarðinum undir greniviðarhríslu. Leiðið er hægra megin í garðinum sé staðið fyrir framan minningarstólpann, sem þar var reistur af Biskupsembættinu með aðstoð Sölva Betúelssonar á Reyrhóli síðasta ábúanda á Hesteyri, og horft til austurs. Semja má við íbúa í skólahúsinu um að fá aðgang að vatnskrananum sem stendur andspænis útidyrahurðinni.

Þriðji göngudagurinn: Hesteyri - Hjálmfríðarból í Aðalvík (6 klst.)

Hjálmfríðarból í Aðalvík (N66°20.446' V023°06.049')

Hægt er að velja á milli tveggja leiða frá Hesteyri til Aðalvíkur. Fara má eftir vegi sem liggur yfir Staðarheiði. Vegurinn byrjar í brekkunni fyrir ofan þorpið. Þessi leið er greiðfær þar sem vegurinn er vel sýnilegur og auk þess varðaður. Þegar komið er fram á heiðarbrúnina og Aðalvík og Staðardalur blasa við er farið niður Fannadalslægðir (N66°19.276' V023°00.382'). Yfirleitt situr snjór í brekkunni og getur verið önugt að fara niður með byrðar á svelli eða harðfenni. Snjólaust var með öllu sumarið 2001.

Í góðu veðri er mælt með að gengið sé um Hesteyrarbrúnir ytri. Sú leið býður upp á mikið sjónarspil náttúrunnar. Á leiðinni má m.a. sjá Drangarjökul, inn Jökulfirði, Ísafjarðardjúp og yfir til Bolungarvíkur. Þessi leið er hafin með því ganga fjöruna til vesturs frá Hesteyri. Þegar komið er út fyrir Hesteyrareyrar (N66°18.975' V022°53.291') er haldið upp á hlaðna götu sem liggur á snið út og upp hlíðina. Gatan er nokkuð brött og nefnist Brattagata. Við enda götunnar (N66°18.975' V022°53.291') er komið upp á Sléttuheiði. Þaðan má fylgja vörðum og símastaurum að Sléttuá. Hana þarf í flestum tilvikum að vaða. Sumarið 2001 tókst að stikla hana á staksteinum (N66°18.702' V022°56.559'). Fyrir ofan bæinn Sléttu má velja á milli tveggja leiðarkosta. Halda áfram að fara eftir Hesteyrarbrúnum og koma niður í Staðardal að sunnan verðu, ganga út dalinn og hafa Staðarvatn á hægri hönd og fara fram hjá Læk. Niðurganga í dalinn er allauðveld sé þessi leið valin. Algengara er að fara niður Fannadalslægðir. Þegar komið er niður í Staðardal (N66°19.303' V023°00.895') er fylgt götuslóða og haldið að kirkjunni og prestbústaðnum að Stað (N66°19.777' V023°03.177'). Leiðin út að Stað leynir á sér. Víða seytlar vatn úr fjallshlíðinni og þarf oft að krækja fyrir keldur. Frá Stað er gatan greið og er besta að taka stefnuna að gatnamótunum upp að bænum Þverdal (N66°20.277' V023°03.628'). Þaðan er góður vegur til vesturs yfir mýrarflóann og rakleitt að Hjálmfríðarbóli (N66°20.446' V023°06.049').

About this document ...

Veiðileysufjörður - Búðir í Hlöðuvík - Hesteyri - Aðalvík

This document was generated using the LaTeX2HTML translator Version 2K.1beta (1.47)

Copyright © 1993, 1994, 1995, 1996, Nikos Drakos, Computer Based Learning Unit, University of Leeds.
Copyright © 1997, 1998, 1999, Ross Moore, Mathematics Department, Macquarie University, Sydney.

The command line arguments were:
latex2html -dir html -split 0 -no_navigation veidi.tex

The translation was initiated by Kristinn Bjorgvin Gylfason on 2001-12-28


Kristinn Bjorgvin Gylfason 2001-12-28