Hjálmfríðarból - leifarnar af bresku ratsjárstöðinni á Darra - Hjálmfríðarból

Gylfi Kristinsson

Yfirlit

Í góðu veðri er upplagt að ganga upp á Darra, fjallið fyrir ofan Hjálmfríðarból. Um er að ræða þriggja til fjögurra klst. gönguleið. Á þessari leið er að finna ýmsar menjar um veru breska herliðsins sem bjó um sig í Aðalvík á stríðsárunum 1940-45. Á heimasíðu félagsins Hjálmfríðarból er að finna svipmyndir frá þessum tíma. Það eykur mjög gildi gönguferðarinnar að lesa stórfróðlega grein eftir Friðþór K. Eydal um ratsjárstöðvar í Aðalvík sem birt er í 36. ársriti Sögufélags Ísfirðinga 1995-1996 (bls. 88-159). Í greininni er að finna ítarlega frásögn um um umsvif Breta á Sæbóli og næsta nágrenni í seinni heimsstyrjöldinni. Með henni eru birtar fjölmargar myndir.

Ganga

Hjálmfríðarból (N66°20.446' V023°06.049')

Haldið er frá Hjálmfríðarbóli annað hvort rakleitt yfir Traðará og í gegnum leifarnar af breska kampinum eða haldið út á Aðalvíkurbraut og upp slóðann að Görðum. Í báðum tilvikum er rétt að staldra við í kampinum og skoða ummerki. Frá kampinum er farið eftir Bretaveginum að rótum Darra og haldið upp á fjallið þar sem togbrautargálgi liggur í grasinu. Hlíðin er nokkuð brött en alls ekki ofviða óvönu göngufólki. Venjulega er gengið bent upp eftir togbrautinni. Á nokkrum stöðum í miðri brautinni standa upp úr jörðinni tveggja til þriggja þumlunga langar járnnibbur (leifar af tólum sem tilheyrðu brautinni). Því ber að sýna fyllstu aðgæslu þegar þessi leið er farin.

Darri -- efst á brúninni við togbrautina (N66°20.326' V023°07.873')

Þegar upp er komið blasir við sléttlendi en fjær í hásuðri ber við hæðardrag. Rústirnar af ratsjárstöð Breta standa efst á hæðardraginu. Fólki er frekar ráðið frá því að halda beint af augun að stöðinni þar sem á þeirri leið eru mýrarflóar og keldur. Hægara er að halda til hægri (vesturs) á fjallsbrúninni og fara eftir góðum vegi sem liggur yfir fjallið að kampinum. Þessi leið er eitthvað lengri en mun greiðfærari en mýrarflóinn. Á hægri hönd á göngunni út að ratsjárstöðinni er Skáladalur. Auðvelt er að komast niður í dalinn fyrir neðan leifarnar af ratsjárstöðinni. Í Skáladal var verstöð Aðalvíkinga og aðalútræði þeirra um aldir. Á sjávarbakknum má sjá tóftir af bænum og miklar verbúðarrústir. Úr Skáladal er auðveld ganga á Rit sem skilur að Djúp og Aðalvík. Ekki er úr vegi að gera lykkju á leið sína í góðu veðri og skoða ummerki í Skáladal og ganga á Rit. Gera má ráð fyrir að taka muni tvær til þrjár klst. að ganga þennan krók. Ýmsan fróðleik um Skáladal er að finna í árbók Ferðafélags Íslands 1994 bls. 109 og um Skáladalsdrauginn er fjallað í Hornstrendingabók.

Darri -- leifarnar af breska kampinum (N66°20.166' V023°09.484')

Ýmislegt er að sjá í leifunum af breska skálahverfinu upp á Darra. Raunar væri gaman að reyna að endurbyggja þetta að einhverju leyti og halda til haga því sem þarna er að finna sem nú er í algjörri niðurníðslu og ekkert hirt um. Nefna má að skálaveggirnir eru að nokkru leyti uppistandandi. Þarna má sjá nokkrar ljósvélar sem notaðar voru til að framleiða rafmagn fyrir ratsjárstöðina. Enn fremur tvær riðgaðar loftvarnarbyssur af gerðinni Oerlikon og ýmislegt fleira. Á þessum stað er ástæða til að sýna varúð. Þarna rís Grænahlíðin þverhnýpt úr sjó og ekki ráðlegt að fara of framarlega á brúnina. Útsýni er frábært til allra átta og GSM símasamband oftast mjög gott.

Darri -- efst á brúninni við togbrautina (N66°20.326' V023°07.873')

Best er að halda til baka sömu leið og fara niður af fjallinu efst á brúninni þar sem togbrautin endar. Minna má á járnnibburnar í togbrautinni, sbr. það sem fram kemur hér að framan.

About this document ...

Hjálmfríðarból - leifarnar af bresku ratsjárstöðinni á Darra - Hjálmfríðarból

This document was generated using the LaTeX2HTML translator Version 2K.1beta (1.47)

Copyright © 1993, 1994, 1995, 1996, Nikos Drakos, Computer Based Learning Unit, University of Leeds.
Copyright © 1997, 1998, 1999, Ross Moore, Mathematics Department, Macquarie University, Sydney.

The command line arguments were:
latex2html -dir html -split 0 -no_navigation darri.tex

The translation was initiated by Kristinn Bjorgvin Gylfason on 2002-01-10


Kristinn Bjorgvin Gylfason 2002-01-10